Skírnir í íslenska söfnuðinum geta farið fram í guðsþjónustu í Esajas kirkju. Einnig er algengt að skírnir fari fram í Jónshúsi og sérstaklega er gaman að hafa skírnarathöfn á heimili Jóns og Ingibjargar í Jónshúsi. Einnig getur skírn farið fram í heimahúsi ef tími og vegalengdir leyfa. Til að óska eftir skírn er best að senda línu á prest safnaðarins í netfangið prestur@kirkjan.dk Almennt um skírn má lesa á heimasíðu Þjóðkirkjunnar https://kirkjan.is/thjonusta/skirn/

Fermingarfræðsla í íslenska söfnuðinum felst í fermingarferðalögum, fræðslustundum í Jónshúsi og þátttöku í helgihaldi. Á hverjum vetri fer fermingarhópurinn héðan tvisvar í ferðalag til Ah Stiftsgard í Svíþjóð. Það er fallegur staður rétt utan við Gautaborg. Þar hittum við íslensk fermingarbörn frá Svíþjóð og Noregi. Ferðirnar eru að hausti og vori. Nokkrum sinnum yfir veturinn hittumst við svo í Jónshúsi í fræðslu, oftast í tengslum við Guðsþjónustur safnaðarins. Það er einnig algengt að fermingarbörn séu í fræðslu hér þó svo að fermingin fari fram á Íslandi. Skrá þarf fermingarbarn til þátttöku fyrir 1. september ár hvert. Skráning fer fram hér: https://www.kirkjan.dk/skraning/

Lesa má almennt um fermingu á vef Þjóðkirkjunnar: https://kirkjan.is/thjonusta/athafnir/ferming/

Hjónavígslur í íslenska söfnuðinum geta farið fram í kirkju, Jónshúsi eða heimahúsi. Þar sem prestur safnaðarins hefur ekki vígsluleyfi í danmörkul fer formlegi/lagalegi hluti vígslunnar fram í ráðhúsi. Eftir að að er frágengið getur kirkjuleg brúðkaupsathöfn átt sér stað.

Lesa má almennt um hjónavígslur á vef Þjóðkirkjunnar: https://kirkjan.is/thjonusta/athafnir/hjonavigsla/

Útfarir í íslenska söfnuðinum eru í samráði við prest safnaðarins. Best er að hafa samband við prest safnaðarins ef óskað er eftir prestsþjónustu við útför. Hægt er að senda erindi á netfangið prestur@kirkjan.dk eða hringja í síma 33 18 10 56.
Ef að útför á að fara fram á Íslandi þá er hægt að fá leiðbeiningar þar að lútandi hjá íslenska sendiráðinu í Danmörku. 

Lesa má almennt um Útför á síðu Þjóðkirkjunnar: https://kirkjan.is/thjonusta/athafnir/utfor/